Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Jahérna hér...

Ég hef gefið það út nokkrum sinnum að ég horfi lítið sem ekkert á fréttir í sjónvarpinu (vegna persónulegra ástæðna). Ég les fréttablöð af og til en forðast allan fréttaflutning í gegnum hljóð- eða myndmiðil. Það hefur vissulega ýmsa vankanta í för með sér. Maður er ekki nægilega með á nótunum eins og gefur að skilja. Ég fékk að kenna á þessum fréttaflótta mínum núna síðast í gærkvöldi þegar ég sat við eldhúsborðið hjá Öllu og Inga og var að gæða mér á dýrindis mat frá Grænum kosti. Ingi setti fréttir Stöðvar 2 á og ég hrópaði strax upp fyrir mig hversu glataðar fréttir væru. Það væru ekkert nema svartsýni og bölspár. Heimurinn er að farast á hverju kvöldi klukkan hálfátta!
Svo kom frétt af kettinum Humphrey á Dowing Street í Bretlandi. Hann var víst að deyja blessaður og þá sagði Ingi: hverjum er ekki sama þótt þessi köttur hafi verið að deyja? Ég svaraði að bragði: Æji þetta er merkilegt dýr! Heldurðu að við myndum ekki birta fréttir um það ef nautið Guttormur myndi deyja??.....Alla og Ingi horfðu á mig eins og ég væri eitthvað klikkuð... ég vissi nefnilega ekki að hann Guttormur hefði dáið SÍÐASTA HAUST!!!! Það hafa m.a.s. verið tvö naut í stíu Guttorms síðan hann dó.

....ég held að ég þurfi að stíga útúr þessari kúlu minni og fara að fylgjast meira með fréttum...sérstaklega svo ég geti myndað mér skoðanir á stóriðjuframkvæmdum áður en að Alla drepur mig!

Bið að heilsa...
Bubblegirl

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home