Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Hillú og gleðileg jól og til hamingju með nýja árið og allt það... (of mikið af "og" í einni setningu)

Já ég er svo sannarlega komin heim frá New York eftir 4ra vikna dvöl. Það er alveg ágætt nema ég er lítið hrifin af þessu snjófargi og síðan skil ég hreinlega ekki afhverju það tekur mig allt í einu hálftíma að keyra í skólann á morgnanna. Voru bílar á útsöluverði um jólin þannig að bílaeigendum fjölgaði um helming á þessu ári? Hvað um það.... þetta er myndarlega bílahalarófa sem myndast frá Árbænum og niður að skólanum mínum. Það er ágætt að hafa með sér afþreyingarefni í bílnum, ég segi ekki annað.

En jæja ameríska jólamenningin var nokkuð frábrugðin þeirri íslensku. Neysluæðið var í algjöru hámarki og mér varð það ljóst mjög fljótlega að landinn var ekkert að sætta sig við kerti og spil í jólagjöf. Jólagjafirnar voru veglegar, flestar í tækjaformi. Ég komst t.d að því að hægt er að tengja i-podinn sinn við allan andskotann þarna úti: I-pod vélmenni, i-pod koddi, i-pod lazyboy o.s.frv. Það eina sem mér fannst virkilega leitt... já jafnvel sorglegt, var hvað fólki virtist vera skítsama um gjafirnar. Þetta var allt bara enn ein græjan í húsið. Að ég tali nú ekki um þá alkunnu staðreynd að það er ekkert verið að klæða sig neitt sérstaklega upp fyrir jólin. Ég og Anthony puntuðum okkur reyndar aðeins en margir voru bara á stuttermabol og hversdagsbuxunum.
Gamlárskvöldið var það furðulegasta sem ég hef upplifað á allri minni ævi. Við vorum stödd í Miami því strákarnir áttu að spila í einhverju snobbpartý á klúbb sem heitir The Mantion. Þeir spiluðu á miðnætti og eftir að þeir höfðu spilað drukkum við allan þann fríbjór sem við gátum í okkur látið. Partýið var mjög súrt. Þarna var stappað af krökkum sem voru moldríkir því að foreldrar þeirra áttu olíupening, hótel eða voru í skemmtanbransanum og annað slíkt. Öryggisgæslan var líka kolklikkuð þannig að við fengum fljótlega ógeð. Eftir mikið þref héldum við á hótelið okkar og slöppuðum af við barinn og fylgdumst með gömlum köllum með hárígræðslu kafa í brjóstin á fertugum konum sem reyndu að líta út fyrir að vera tvítugar.
Morguninn eftir flugum við til NY og fengum fyrir "slysni" sæti á fyrsta farrými sem var nokkuð ljúft fyrir utan það að flugfreyjan á fyrsta farrými var snargeðveik. Fyrir það fyrsta þá leit hún út eins og afkvæmi Dolly Parton og The Crypt-keeper ( ógeðslega múmíudúkkan frá Tales from the crypt) og bæði ég og Anthony vorum pottþétt á því að hún hefði sogið feita línu af kóla áður en við komum um borð. Kellingarbeyglan (sem var örugglega rúmlega fimmtug) malaði út stanslaust allt flugið á talhraða sem er ekki mannlegur og skreið um allt farrýmið eins og kónguló með og tróð vatni og snakki framan í andlitið á nokkuð skelkuðum farþegum.

En nóg um það.... er ekki komið nóg af þessu blaðri mínu í bili. Vonandi eruð þið bara öll södd og sæl eftir jólin.

Bestu kveðjur

Erna Björk

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home