Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Ooooooojjjjjjjjjj!!!!!!!!!!!!!

Nú ætla ég að segja ykkur sögu:
Ég kom í íbúðina mína hérna í Hraunbæ í gærdag. Mikið fannst mér nú gott að koma heim í hlýja stóra rúmið mitt í litlu sætu íbúðinni minni. Alveg fullkomið..... eða hvað? Ég vakti aðeins fram eftir við sjónvarpsgláp með honum pápa mínum sem verður hjá mér næstu tvær vikurnar meðan hann vinnur í afleysingum hjá BM-Vallá. Þegar pappi var farinn að hrjóta í svefnsófanum í stofunni og ég að draga heldur miklar ýsur ákvað ég að fara upp í rúm. Best að taka með sér bók að lesa. Já best að skríða undir sæng með bókina og hafa það kósý. Hafa það kósý?? Ónei sei sei... í rúminu mínu voru óboðnir gestir. Í rúminu mínu eða þ.e.a.s í svefnhverberginu mínu eru bed-bugs. Því tók ég nú heldur betur eftir þegar ég var komin upp í rúm og sá eitthvað skjótast í áttina að mér. Lítil, flöt rauð-brún bjalla sem minnir á stóra lús. Ég vildi samt ekki viðurkenna fyrir mér strax að þetta gætu verið þessi kvikindi þar til ég sá aðra hlaupa yfir sængina og í átt að mér. Já það átti heldur betur að gæða sér á litlu stelpunni. Bed-bugs eru nefnilega sólgin í okkur mannfólkið og elska að bíta úr okkur lítil stykki meðan við sofum í okkar mesta sakleysi. Eins pöddufælin og ég er þá getið þið ímyndað ykkur viðbrögðin, ég held að öskrin í mér hafi náð hátíðni á meðan ég tók stríðsdans á gólfinu og sló af mér ímyndaðar pöddur (hrollur).
Það var þá ekkert annað hægt en að vekja pabba og við hófumst handa við að henda öllum töskum út á svalir og fóru öll föt í svarta ruslapoka sem bíða þvottahússins með óþreyju. Eftir að herbergið mitt hafði verið strípað lagðist ég inn í stofusófa með teppisgarm yfir mér og mikla gæsahúð. Mér leið hreinlega eins og ég væri þakin þessum ógeðum. Þvílíkt kósý!!!!
Meindýraeyðirinn kom í dag og eitraði hjá mér, ég sef aftur í stofunni í kvöld. Á morgunn á ég þvottahúsið pantað allan daginn og sá Mæja frænka auman á mér og ætlar að aðstoða mig því ég er enn aum eftir aðgerðina. Ég verð örugglega næstu daga að þvo svo til hverja einustu flík af mér.

It´s good to be home......

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home