Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

föstudagur, júlí 15, 2005

Staðan er þessi....og lesið þetta vel og lærið af mínum mistökum!!!!!!!!!

Stofusófi: farin á haugana
Svefnsófi: farin á haugana
Tveir bólstraðir stólar: Farnir á haugana
Rúm: farið á haugana sniff sniff sniff

Þar að auki er ég búin að þvo hverja einustu flík af mér. Henda slatta af fötum sem ég nota lítið sem ekkert (bara að létta undir með þvottamennskunni. Allar bækur, blöð, bæklingar, bangsar, töskur, veski og skór eru í frysti næstu tvær vikurnar. Og svo var auðvitað eitrað. Það var eitrað við gólf, veggi, ljós, hurðar, glugga, innstungur, inní skápa, aftan á allt sem hékk á veggjum og annað smádrasl. Íbúðin er svo gott sem tóm og ég er búin á því. Ég hef sem betur fer notið góðrar hjálpar fjölskyldumeðlima og vina. Þið sem hafið verið í heimsókn hjá mér þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að þetta hafi borist með ykkur eða með mér. Ég spurði meindýraeyðinn. Þið hafið ekki gist í rúminu mínu með farangur;) En þetta get ég sagt ykkur. Þið skuluð alltaf skoða rúmin á hótelum sem þið gistið á í útlöndum. Ekki skilja töskurnar eftir opnar á gólfinu. Hafið þær lokaðar upp á borði með fötunum í. Þegar þið komið heim skuluð þið skutla ÖLLUM fötum rakleiðis í þvottavél og svo skuluð þið þvo og rykskuga töskuna að utan og innan, spreyja hana með pödduspreyi og helst geyma hana niðrí geymslu eða bara úti í tvær vikur. Meindýraeyðirinn sagði mér að þetta væri að aukast verulega. Áður voru svona 2-3 tilfelli á ári en núna eru það 2-3 tilfelli á viku. Við erum að ferðast miklu meira en áður því flugfargjöldin eru orðin miklu lægri.

Og hér kemur það sem vonandi það sem vekur okkur öll til umhugsunar. VIÐ GETUM EKKI TRYGGT OKKUR GEGN MEINDÝRUM. Tjónið sem ég hef því orðið fyrir er óbætanlegt að öllu leyti.

Lifið og lærið

Ykkar Erna Björk

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Ooooooojjjjjjjjjj!!!!!!!!!!!!!

Nú ætla ég að segja ykkur sögu:
Ég kom í íbúðina mína hérna í Hraunbæ í gærdag. Mikið fannst mér nú gott að koma heim í hlýja stóra rúmið mitt í litlu sætu íbúðinni minni. Alveg fullkomið..... eða hvað? Ég vakti aðeins fram eftir við sjónvarpsgláp með honum pápa mínum sem verður hjá mér næstu tvær vikurnar meðan hann vinnur í afleysingum hjá BM-Vallá. Þegar pappi var farinn að hrjóta í svefnsófanum í stofunni og ég að draga heldur miklar ýsur ákvað ég að fara upp í rúm. Best að taka með sér bók að lesa. Já best að skríða undir sæng með bókina og hafa það kósý. Hafa það kósý?? Ónei sei sei... í rúminu mínu voru óboðnir gestir. Í rúminu mínu eða þ.e.a.s í svefnhverberginu mínu eru bed-bugs. Því tók ég nú heldur betur eftir þegar ég var komin upp í rúm og sá eitthvað skjótast í áttina að mér. Lítil, flöt rauð-brún bjalla sem minnir á stóra lús. Ég vildi samt ekki viðurkenna fyrir mér strax að þetta gætu verið þessi kvikindi þar til ég sá aðra hlaupa yfir sængina og í átt að mér. Já það átti heldur betur að gæða sér á litlu stelpunni. Bed-bugs eru nefnilega sólgin í okkur mannfólkið og elska að bíta úr okkur lítil stykki meðan við sofum í okkar mesta sakleysi. Eins pöddufælin og ég er þá getið þið ímyndað ykkur viðbrögðin, ég held að öskrin í mér hafi náð hátíðni á meðan ég tók stríðsdans á gólfinu og sló af mér ímyndaðar pöddur (hrollur).
Það var þá ekkert annað hægt en að vekja pabba og við hófumst handa við að henda öllum töskum út á svalir og fóru öll föt í svarta ruslapoka sem bíða þvottahússins með óþreyju. Eftir að herbergið mitt hafði verið strípað lagðist ég inn í stofusófa með teppisgarm yfir mér og mikla gæsahúð. Mér leið hreinlega eins og ég væri þakin þessum ógeðum. Þvílíkt kósý!!!!
Meindýraeyðirinn kom í dag og eitraði hjá mér, ég sef aftur í stofunni í kvöld. Á morgunn á ég þvottahúsið pantað allan daginn og sá Mæja frænka auman á mér og ætlar að aðstoða mig því ég er enn aum eftir aðgerðina. Ég verð örugglega næstu daga að þvo svo til hverja einustu flík af mér.

It´s good to be home......

sunnudagur, júlí 03, 2005

Ha?? ég vissi ekki að ég hefði pantað gistingu á Lansanum á Hringbraut???

Smávægilegir verkir sem þú varla tekur eftir á fimmtudagseftirmiðdegi geta verið óbærilegar kvalir á miðnætti sama dag og ástæða þess að þér er hent undir hnífinn á föstudagsmorgni.
Já svona grunlaus var ég en ég ákvað nú svona samt til öruggis að setja i-podinn og tannburstann í töskuna mína áður en ég brunaði niður á bráðamóttökuna eftir að nattenvakten var búin að pota í magann á mér og greina mig með "hugsanlegt botnlangakast". Þannig var ég stödd á sjúkrabörum á Hringbrautinni á meðan að flestir sem ég þekkti voru að jafna sig eftir Duran Duran. Allskyns prufur voru teknar, ég var mæld fram og til baka, potað í mig á alla kanta og sprautuð við öllum andskotanum. Svona lá ég í lyfjamóki fram undir morgunn þar til það var ýtt við mér og mér sagt að ég færi undir hnífinn. "Núnú..." sagði ég hin rólegasta þó svo að þetta væri það allra síðasta sem ég nennti að standa í. +
Jæja ég var "preppuð" eða undirbúin eins og ætti víst að segja og síðan svæfð um áttaleytið á föstudagsmorgni. Svo vakna ég á gjörgæslu alveg úti að aka... það var verið að siða mig til því ég var alltaf að kippa súrefnisslöngu úr nefinu sem átti að láta vera. Í alvöru... nú veit ég hvernig krökkum líður þegar maður talar niður til þeirra: "Erna þú ert á gjörgæslu núna. Það MÁ ekki taka þessa slöngu.. þú verður að fá súrefni ofan í lungun á þér". "Uuhhm.. ókey" sagði ég en rykkti slöngunni samt úr nefinu í tíundusta skiptið. Ég veit ekkert afhverju ég gerði það... mig klæjaði bara eitthvað í nebbann og réð ekki við þessi viðbrögð.
Jæja útskrifuð á laugardegi og komin heim til Eyja samdægurs en stelpan var eitthvað ekki alveg að taka við sér. Ekkert hélst niðri og verkirnir voru verri en nokkurntíma áður þannig mér var brunað í sjúkrabíl uppá Spítalann hérna í Eyjum um kvöldmatarleytið. Þannig lá ég þangað til rétt eftir hádegi í dag... eða í 17klst allt í allt. Það var gott að fá smá vökva og hvíld um nóttina og ég fékk sprautu við verkjunum og ógleðinni (sem ég verð að segja hefur verið versti fylgifiskurinn auk uppkastanna brrrrt).
Ég er sumsé alveg hreint að taka við mér. Get borðað. Svolítið upplásin eftir kuklið í mallanum á mér... Æji já þeir tóku einhverjar blöðrur, uppsafnað blóð og botnlangann. Allt þetta var snyrtilega gert í gegnum þrjá skurði á mallanum mínum og til þess að þetta væri mögulegt þurfti að blása mig upp. Án gríns... maginn er blásinn upp svo betra sé að vinna á manni.
Sumsé.. á batavegi... svolítið uppblásin en þetta kemur vonandi allt eftir vikuhvíld. Nú verðið þið að afsaka mig því ég er alveg búin á því að sitja hérna við tölvuna og ætla aðeins að leggja mig oggupons.

Stay healthy