Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

föstudagur, apríl 01, 2005

Áhugaverðar nætur.

Já líf mitt er ekki eingöngu ein alsherjar rússibanareið að degi til heldur eru næturnar uppfullar af spennandi atburðum. Draumfarir mínar hafa t.a.m. verið afar áhugaverðar og markverðasti draumurinn var án efa þegar mig dreymdi í fyrrinótt að systir mín kæmi að mér Clint Eastwood-style með risastóra silfurgljáandi skammbyssu og plaffaði mig í hausinn. Ég lifði hamfarirnar af en systir mín harðneitaði að hjálpa mér að komast á spítala þannig að ég ætlaði að rjúka út í brjálæðiskasti en gat það ekki því ég hafði lamast öðrum megin og gat ekki opnað útidyrahurðina. Í staðinn lamdi ég öxlinni endurtekið utan í hurðina í örvæntingu minni með handlegginn lafandi máttlausan meðfram síðunni.
Án þess að það tengist draumi mínum nokkuð þá er systir mín einmitt í heimsókn hjá mér með stelpurnar sínar tvær. Við gistum í litlu íbúðinni minni í Hraunbænum og deilum allar fjórar rúmi. Ég set nú þrengsli ekki fyrir mig og sef alveg ágætlega þrátt fyrir að plássið sé takmarkað en bæði systir mín og yngri dóttir hennar hún Kristín tala alveg svaðalega upp úr svefni. Ég hrökk upp með andfælum um miðja nótt við það að Kristín litla var andsetin og talaði tungum. Orðin bunuðust út úr henni samhengislaust en mér heyrðist hún vera reyna að rífa kjaft eða eitthvað. Jæja ég breiddi sængina yfir hana og reyndi að róa hana þar sem hún lá við hliðina á mér en þá upphóf systir mín raust sína á hinum enda rúmsins. Hún fór að kalla á Kristínu hástöfum en hristi eldri dóttur sína hana Söru Ósk á meðan líkt og hún væri Kristín.

Ég: Þórey hvurn andskotann ertu að gera Kristín liggur hérna hjá mér.
Þórey: Kristín! Kristín!
Ég: Hættu þessu! Þú ert að vekja Söru.
Þórey (enn að ýta við Söru): Kristín! Kristín! Er þér svona kalt elskan mín?? Farðu til Ernu og lokaðu glugganum. Glugginn er á rúminu hjá henni.
Ég: Dísús!! Þetta er Sara Ósk en ekki Kristín!!
Þórey: ZZZZZzzzz-ZZZZZ........ SARA ÓSK FAR ÞÚ OG LEGGSTU INN Í ELDHÚS... NÚNA!!!
Ég: ............?????

Já... þetta endurtók sig nokkrum sinnum og alltaf var Þórey að babbla eitthvað um hitastigið inn í herberginu eða hvað það væri lítið pláss í rúminu á meðan að Kristín hélt áfram að þylja upp eitthvað sem ekki var möguleiki að fá botn í.

......Ég var þreytt þegar ég vaknaði í morgunn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home