Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Sviðsskrekkur....

Hann gerir ekki alltaf boð á undan sér. Stundum finnur þú hann byggjast hægt og sígandi upp í þér en í öðrum tilfellum (eins og mínu tilfelli) þá stekkur hann á þig og hakkar þig í tætlur þér algjörlega að óvörum. Þú þarft ekki einu sinni að vera á sviði þegar sviðsskrekkur bítur þig, þú getur verið að tala á fyrirlestri, þú getur verið að halda ræðu í brúðkaupi eða... inní skólastofu að koma frá þér 5 mínútna örkennslu (eins og í mínu tilfelli). Það sem gerist er erfitt að lýsa nákvæmlega. Manni finnst allt blóð tæmast úr kroppinum þó svo maður viti að maður gæti aldrei staðið uppréttur í því ástandi. Þvínæst fara stafirnir á blaðinu á hreyfingu en maður veit samt að þeir eru nákvæmlega þar sem maður ritaði þá. Manni virðist líka blaðið með hlaupandi stöfunum vera allt annað blað en það sem maður skrifaði svo samviskulega á deginum áður, einhver virðist hafa skipt á mínum blöðum og sínum (en það er harla ólíklegt). Svo fær maður skyndilega einhvern óútskýrskýranlegan taugasjúkdóm á háu stigi því útlimir manns titra og skjálfa stjórnlaust og gott betur því maður er illa haldin af alzheimer og málleysi því ekkert man maður, hvað þá að maður geti aulað því útúr sér. Lungun hljóta líka að skreppa saman því maður má prísa sig sælan nái maður að draga andann dýpra heldur en þar sem viðbeininn liggja. Nú í þessu "frábæra" og súrealíska ástandi þar sem maður sér ekkert, man ekkert, getur ekki talað, getur ekki staðið kyrr né andað þá hrópar heilinn á súrefni og við bætist blessuð yfirliðstilfinningin sem ber mann ofurliði ef að tilfinningarnar gera það ekki á undan.

Já þetta er frábær líðan. Mæli með því við alla að þið prófið þetta sem allra fyrst. Ég prófaði þetta í morgunn og var það alveg einstaklega hressandi. It made my day!!!!

Þið lesið kaldhæðnina í þessu er það ekki?

Bless lömbin mín.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home