Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Jess!!

Pestardjöfull storkar mér. En hann skal ekki ná að knésetja mig! Ég skal mæta í skólann á morgunn! Þú átt enga burði í mig þú ljóti pestar-lúsablesi!
Já þetta er hressandi. Mataræðið hefur líka verið í takt við heilsufar mitt. Hálft ristað brauð, hafragrautur og ógrynnin öll af te. Svo hafa hitastillandi og verkjastillandi töflur laumast þarna með.

Hvað er annars málið með að vera veikur? Munið þið þegar maður var krakki og engdist um í rúminu sínu í óráði með eyrnabólgu, beinverki og 39 stiga hita? Það var bara nokkuð næs! Vitiði útafhverju? Því maður var með þessi svokölluðu veikindarfríðindi. Það var stjanað við mann, ÓJÁ LÚXUSINN VAR ÞVÍLÍKUR! Mamma vafði mann allan í stórri sæng og maður fékk fullt af nammi og vídjóspólum og dót og uppáhaldsmatinn sinn og ég veit ekki hvað og hvað. Pabbi kom og hlýjaði táslunum á meðan mamma náði í kaldan þvottapoka til að setja á ennið. Allir voru svo góðir við mann að það hálfa væri hellingur. Svo mætti maður aftur í skólann eftir veikindin og kennarinn og samnemendur tóku manni fagnandi: VELKOMIN AFTUR ERNA BJÖRK!!
En hvað gerist svo þegar maður verður fullorðinn? ENGIN VEIKINDARFRÍÐINDI, gleymdu því bara. Maður má bara eiga sig og hana nú. Maður drattast um íbúðina sína í ljótum frotténáttslopp í svitakófi, þjónustar sjálfa sig með allt og knúsar koddann sinn í von um að einhverja huggun sé þar að finna. Það kemur engin mamma að vefja mann inní sængina þannig maður reynir að gera það sjálfur en endar á því að flækjast í sængurverið eins og fluga í kóngulóarvef. Best að éta bara meira íbúfen og vonast til að sofna. Veikindi á fullorðinsárum eru tímasóun!! Djöfull ætla ég í skólann á morgunn, nenni þessu ekki!

Lifið heil

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home