Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Jæja þá er enn einni helginni að ljúka.

Jólalög í útvarpinu.
Jólaljós útum allt.
Engin í jólaskapi samt sem áður.

Ég vann á Nasa á föstudaginn en fékk laugardaginn frí til að fara út með Védísi og Díönu sem komu í heimsókn frá London. Djammið var frekar slappt to be honest. Við hlupum um eins og hauslausir kjúklingar á milli skemmtistaðanna og þannig að ef ég var ekki að frjósa úr kulda þá voru lappirnar að drepa mig á þessum hlaupum. Fyrripartur dagsins var mun skemmtilegri. Þá hittumst við og létum taka myndir af okkur í stúdíóinu hans Davíðs vinar okkar, það var mikið fjör:)

Annars er maður alltaf á mörkunum að verða þunglyndur í þessu bévítans rokrassgati, myrkri og fátækt! Ég veit ekki hvar ég væri ef haframjöl væri ekki til. Maður getur þó allavega fengið sér hollan og góðann hafragraut fyrir kúk og kanil í þessu peningaleysi.

Það gleður mig mjög mikið að bráðum get ég farið heim til mömmu og pabba. Ég er komin með alveg svakalega heimþrá, enda hef ég ekki kíkt heim síðan á Þjóðhátíð. Er það ekki einum of mikið????

Lifið heil

föstudagur, nóvember 26, 2004

Til að byrja með...

...vil ég byrja á að óska Inga Frey (kærastanum hennar Öllu) vinkonu alveg innilega til hamingju með afmælið í gær. Til lukku kæri vin! Og síðan vil ég bara klappa sjálfri mér á bakið fyrir alveg frábærlega vel unnin störf svona almennt:D

Annars er ég að skrölta í gegnum lokin á þessari önn. Auk þess sem ég er með námsleiða á háu stigi þessa dagana þá hefur verið frekar niðurdrepandi undanfarið að mennta sig til grunnskólakennara þegar þessi stétt hefur skyndilega verið gerð að ástæðu þess að allt mun fara til fjandans í þjóðfélaginu næstu árin (sbr hærra matarverð og ég veit ekki hvað og hvað). Kennarar eru alltíeinu einhverjar nornir sem eru að tæma sjóði sveitafélaga og ríkisins, allt útaf því að þeir dirfðust til að biðja um mannsæmandi kjarasamninga. What a ****ing crap! En nóg um það, nenni ekki að tala um þetta verkfall meira og hvað það var ógeðslega niðurdrepandi og fáránlegt.

Á næsta ári mun ég sitja á árgangsmóti með árganginum mínum og fagna 10 ára fermingaafmæli. Ég hálfkvíði því. Hvað gerir maður á svona árgangsmóti??? Æji ég er með svona "Ljóta-andarunga-komplexa" frá grunnskólaárum mínum. Ég var svo mikið NÖRD! Lítil, rauðhærð, mjó, með gleraugu og spangir. GERIST ÞAÐ VERRA!!! Kannski dett ég aftur í sama farið... fer bara að læðast meðfram veggjunum á árgangsmótinu, horfi í gólfið og stama ef á mig er yrt. Og kannski verð ég bara ofurölvi.. drekk í mig kjark, enda á því að brölta uppá svið, rífa míkrafóninn af Betsý vinkonu (sem er eflaust í nefnd ef ég þekki hana rétt hehehe) og helli mér yfir alla sem voru vinsælli en ég (revenge of the nerd!!). Síðan drepst ég inná kvennaklósetti með tekílaflösku og gömlu einkunirnar mínar í fanginu:) Hvað finnst ykkur;)

Could happen, híhíhíhíhí:D

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Jess!!

Pestardjöfull storkar mér. En hann skal ekki ná að knésetja mig! Ég skal mæta í skólann á morgunn! Þú átt enga burði í mig þú ljóti pestar-lúsablesi!
Já þetta er hressandi. Mataræðið hefur líka verið í takt við heilsufar mitt. Hálft ristað brauð, hafragrautur og ógrynnin öll af te. Svo hafa hitastillandi og verkjastillandi töflur laumast þarna með.

Hvað er annars málið með að vera veikur? Munið þið þegar maður var krakki og engdist um í rúminu sínu í óráði með eyrnabólgu, beinverki og 39 stiga hita? Það var bara nokkuð næs! Vitiði útafhverju? Því maður var með þessi svokölluðu veikindarfríðindi. Það var stjanað við mann, ÓJÁ LÚXUSINN VAR ÞVÍLÍKUR! Mamma vafði mann allan í stórri sæng og maður fékk fullt af nammi og vídjóspólum og dót og uppáhaldsmatinn sinn og ég veit ekki hvað og hvað. Pabbi kom og hlýjaði táslunum á meðan mamma náði í kaldan þvottapoka til að setja á ennið. Allir voru svo góðir við mann að það hálfa væri hellingur. Svo mætti maður aftur í skólann eftir veikindin og kennarinn og samnemendur tóku manni fagnandi: VELKOMIN AFTUR ERNA BJÖRK!!
En hvað gerist svo þegar maður verður fullorðinn? ENGIN VEIKINDARFRÍÐINDI, gleymdu því bara. Maður má bara eiga sig og hana nú. Maður drattast um íbúðina sína í ljótum frotténáttslopp í svitakófi, þjónustar sjálfa sig með allt og knúsar koddann sinn í von um að einhverja huggun sé þar að finna. Það kemur engin mamma að vefja mann inní sængina þannig maður reynir að gera það sjálfur en endar á því að flækjast í sængurverið eins og fluga í kóngulóarvef. Best að éta bara meira íbúfen og vonast til að sofna. Veikindi á fullorðinsárum eru tímasóun!! Djöfull ætla ég í skólann á morgunn, nenni þessu ekki!

Lifið heil

mánudagur, nóvember 22, 2004

Sjalla lalla laaaaa!!

Góðan daginn og allir gefa henni Völu Fritz eitt gott klapp fyrir hreint út sagt stórglæsilega frammistöðu í Idol síðasta föstudag!! Já hún Vala er eyjaskvísa góð og var landi og þjóð til sóma!! Við stelpurnar hittumst og horfðum á Idol saman og við vorum svo ógeðslega spenntar og stoltar að við vorum að rifna. Ég er að segja ykkur það að ef hann Davíð-WHATEVER-Smári hefði komist áfram þá hefði ég gefið skít í Idol fyrir lífsstíð, hann var svo alltof góður fyrir þessa keppni að EIGIN MATI ;)

En útí aðra sálma... ég er komin í mikla kennaranemakreppu (svo meira sé sagt). Er ég að fara að kenna þegar ég lýk námi? Er maður að nenna því að standa í svona ógeðslega nasty deilum fjórða hvert ár því það er ekki hægt að negla almennilegan kjarasamning fyrir þessa starfsstétt? Nei maður spyr sig... maður hefur svo sannarlega fengið að kynnast myrku hliðinni á þessu starfi ( að ég tali nú ekki um aumingja leiksskólakennarana, óska þeim alls hins besta í sinni kjaradeilu ).

Og svo í enn og aðra sálma ( sálmur 23 heheheh ). Upp dúkkaði sú hugmynd hjá mér að kíkja í vistaskipti til Svíþjóðar næsta haust og eins og er.... stefnir allt í að ég láti verða af því:)

Og hana nú! sagði....

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Fallegasta veður í heimi!!

Vá ég elska þetta fallega vetrarveður hérna á Íslandi! Það er svo kósý að finna snjóinn braka undir fótunum og sjá alla labba um kappklædda. Lokins almennilegur vetur, ekki bara slabb og viðbjóður!

Annars er ég að undirbúa lotu númer tvö í skólanum. Nú eru nokkur verkefni eftir, svo koma próf og svo svo svo svo.....HEIM Í JÓLAMAT HJÁ MÚTTER OG FATER!!!! Ooohh ég get ekki beðið. MMMmmmmm ég er að hugsa um aspassúpuna sem pabbi gerir á hverjum jólum, svo góóóóóð:D

Langar síðan bara að bæta við að ég ( líkt og margir margir aðrir ) sit alltaf pikkföst fyrir framan sjónvarpið á miðvikudagskvöldum og horfi á ER, AMTM og The L word, allt snilldarþættir og alveg gríðarlega spennandi. Mér finnst reyndar að þessi Jenny tussu-aumingi í L-word mætti bara hætta þessu djöfuls væli og fara burt frá Lesbo-town ( margt líkt með henni og Bobby Donnel í Practice, ekki leið sá þáttur án þess að Bobby Donnel færi að skæla ). O jæja.. lífið mitt er farið að snúast ískyggilega mikið um sjónvarpið þessa dagana. Verst að ég missti af Eddunni... ég fékk ekki tækifæri til að æla í beinni útsendingu þegar Spaugstofan fékk Edduna fyrir besta sjónvarpsþáttinn. COMMON!!!

Jæja ég er farin út að bruna á snjóþotu útí eilífðina. Bleeeeeeesssss!

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim....

Já nú er komið að því! Þið getið tekið höndum saman og lagt þeim lið sem eru þurfandi. Það eina sem þið þurfið að gera er að koma að Kennaraháskólanum Stakkahlíð, finna pósthólf númer 73 og þar eru öll frjáls framlög vel þegin.

Vissir þú að með því að borga einungis 2000kr á mánuði þá sérðu fátækum kennaranema fyrir amk tveimur heitum máltíðum á dag í mötuneyti skólans?

Hvað er 2000kr á mánuði fyrir þig? Nákvæmlega ekkert! Dropi í hafið! Sýndu samhug og sjáðu Ernu litlu fyrir mat og bensíni á bílinn hennar. Öll framlög vel þegin. Sérstaklega þau sem eru með fimm stafa tölu;)

Guð blessi alla... en aðallega þá ríku og gjafmildu.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Bíðið nú hæg??

Er það rétt skilið hjá mér að síðasti Practice þátturinn EVER! hafi verið sýndur á sunnudaginn?

Fæ ég ekki að sjá meira af Alan Shore?? Mér er nú allri lokið svei mér þá:(

Ég hef bara eitt að segja...

Denny Crane.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Það er nefnilega það....

Já nú er alltof stuttri helgi að ljúka hjá mér. Maður hefur bara ekki sest niður skal ég segja ykkur.
Á föstudaginn fór ég svo út á djammið með íslenskubekknum mínum (very much fun) og þar var þeim ófáum drykkjunum stútað. Daginn eftir vaknaði ég og ég get ekki annað en velt fyrir mér... hvað ég er að gera með karlmannsilmvatn í töskunni minni???? Á laugardaginn hélt ég galvösk til vinnu og í dag vann ég hópverkefni með bekkjarsystrum mínum. Eftir 3klst fer ég síðan aftur í vinnu og það er spurning að næla sér í eina kríu fyrir þau ósköp.

Annars reyni ég að nota þann tíma sem ég fæ til hvíldar en það eru nokkrir hlutir sem standa í vegi fyrir mér.
T.d: Verkamenn að vinna með hjólsög fyrir neðan svalirnar mínar. Það er ekki gaman, sérstaklega ekki á sunnudögum.
Blessað barn nágranna minna sem ég hef komist að er með "grenjustundatöflu".

7:30-8:00 ALLA VIRKA DAGA: Grenjað stanslaust þar til farið er í leikskólann. Þá tekur yfirleitt við smá rútína frammi á stigagangi þar sem foreldri og barn eru ekki sammála hvort barnið skuli labba niður sjálft eða það sé borið.
KVÖLDMATARLEYTI: Grenjað/vælt/öskrað annaðhvort yfir matnum, baðinu eða hvenær eigi að fara í rúmið. Þá hleypur barnið að útidyrahurðinni í íbúðinni sinni þannig það glymur vel yfir til allra nágranna.

Helgar: Grenjað amk einu sinni á dag og það ekki yfir neinu sérstöku. Ég persónulega held að barnið sé að gráta yfir Bush-ríkisstjórninni eða gróðurhúsaáhrifunum... eða þá það fattar bara að það hefur gleymt að grenja yfir daginn og harmar það mikið. Gæti það ekki passað?

Jæja svei mér þá ef það er ekki að góla núna... það fer að líða að því að ég byrji líka á því ( svo barnið standi nú ekki eitt í þessu )

Jæja bless í bili... ég er farin að kaupa mér eyrnatappa.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Hugarflæði

James Spader (Alan Shore í Practice): Afar kynþokkafullur.. in a weird way.
Dead like me (nýr þáttur á S1): Lofar barasta góðu.
Hilmir Snær: Hands down sá allra fallegasti á Íslandi.
Setningafræði og orðflokkagreininga: Álíka spennandi og að fá stólpípu í beinni.
Fréttir í dag: Boring boring boring....
Dv: Drasl af fréttasnepli.
Skammdegið á Íslandi: Hressir og kætir.. (not).
Karlmenn: Með öllu óþarfir?
Konur: Will domain earth?
Íslenska Idol: Áfram Eyjar!!!
Birgittu Haukdal dúkkan: What the fuck???
Og síðan smá nostalgía:...munið þið þegar það var spari að fara út á "veitingastað" og káupa sér hamborgar (sbr Sprengisandur). Those were the days.

Vildi bara deila þessu með ykkur í þessum nýfallna snjó.

kv Ernus Fernus


miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Hmmm...

Í dag var sagt við mig að ég væri með svo neikvætt viðhorf til kvikmynda og þátta. Ég er bara alveg ósammála þeim ásökunum og verst þeim hér með.

Í fyrsta lagi þá fannst mér athugasemdin sem ég setti útá á eðalskítinn "Honey" aldeilis eiga rétt á sér. Hvað get ég gert í því þó einhver bjáninn hafi farið niður á yfirmann Columbia Tristar Pictures og þar af leiðandi fengið að gera kvikmynd úr sínu næfurþunna og skítlélega handriti.

Í öðru lagi.. One Tree Hill er án efa leiðinlegasta Dawson Creek-klón sem ég hef á ævi minni horft á. Það fyrir mér er STAÐREYND. Þessir krakkar eru svo ámátlegir og leiðinlegir að mig langar helst að stinga úr mér augun þegar ég kveiki á tækinu.
Ó Peyton ég píri augun svo mikið og hvísla svo kynþokkafullt því ég er bara 18 ára krakkafífl með skeggvöxt á við mann á þrítugsaldri. Guuuuuubbbbbb.

Í þriðja lagi þá er Day after Tomorrow lélegasta afsökun fyrir kvikmynd punktur og basta. Hvernig í ósköpunum geta krakkar í flíspeysum varist 70 gráðu frosti með því að YLJA SÉR VIÐ ARIN!!!????? Give me a fucking brake!!!

Í fjórða lagi.. þið vitið hvað mér finnst ógurlega gaman að lýsa yfir áliti mínu á svona hlutum. Vonandi stuðar það ykkur ekki fram úr öllu valdi en comment eru að sjálfsögðu vel þegin. Hvort sem þið viljið taka undir með snilldarathugasemdum mínum eða einfaldlega lýsa yfir reiði ykkar á minni hálfu þá gef ég ykkur orðið. Eruð þið kannski með þætti, kvikmyndir eða auglýsingar sem þið þurfið að lýsa viðbjóð yfir?? þá er þetta vettvangurinn:)

Njótið vel:D

mánudagur, nóvember 08, 2004

Jibbý kóla!!!

Stelpupartýið heppnaðist líka svona ljómandi vel. Vonandi að ég geti endurtekið þetta innan tíðar aftur. Ég efast ekki um að það verði haldið annað partý innan tíðar og þá er spurningin bara... hver heldur það partý??

Annars er mest lítið af mér að frétta. Íbúðin mín er reyndar á hvolfi en það er bara seinni tíma vandamál og peningarnir líka (eða skorturinn á þeim þ.e.a.s). Ég er að reyna að tileinka mér "white trash stíl", ég sit á sumbli allan daginn úti á svölum, keðjureyki og borða matinn minn úr plast skálum með plasthnífapörum. Ef ég verð heppin þá verð ég búin að eignast þrjú bastarðarbörn innan þriggja ára. Þá get ég farið á féló, hrunið ærlega í það og látið börnin mín sprikla um göturnar í gatslitnum hlýrabolum og með tveggja kílóa þungar karrýbrúnar bleyjurnar lafandi niður bossann.

Ekki síðan segja mér að ég hafi engin markmið í lífinu!!

Erna kveður að sinni.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Sviðsskrekkur....

Hann gerir ekki alltaf boð á undan sér. Stundum finnur þú hann byggjast hægt og sígandi upp í þér en í öðrum tilfellum (eins og mínu tilfelli) þá stekkur hann á þig og hakkar þig í tætlur þér algjörlega að óvörum. Þú þarft ekki einu sinni að vera á sviði þegar sviðsskrekkur bítur þig, þú getur verið að tala á fyrirlestri, þú getur verið að halda ræðu í brúðkaupi eða... inní skólastofu að koma frá þér 5 mínútna örkennslu (eins og í mínu tilfelli). Það sem gerist er erfitt að lýsa nákvæmlega. Manni finnst allt blóð tæmast úr kroppinum þó svo maður viti að maður gæti aldrei staðið uppréttur í því ástandi. Þvínæst fara stafirnir á blaðinu á hreyfingu en maður veit samt að þeir eru nákvæmlega þar sem maður ritaði þá. Manni virðist líka blaðið með hlaupandi stöfunum vera allt annað blað en það sem maður skrifaði svo samviskulega á deginum áður, einhver virðist hafa skipt á mínum blöðum og sínum (en það er harla ólíklegt). Svo fær maður skyndilega einhvern óútskýrskýranlegan taugasjúkdóm á háu stigi því útlimir manns titra og skjálfa stjórnlaust og gott betur því maður er illa haldin af alzheimer og málleysi því ekkert man maður, hvað þá að maður geti aulað því útúr sér. Lungun hljóta líka að skreppa saman því maður má prísa sig sælan nái maður að draga andann dýpra heldur en þar sem viðbeininn liggja. Nú í þessu "frábæra" og súrealíska ástandi þar sem maður sér ekkert, man ekkert, getur ekki talað, getur ekki staðið kyrr né andað þá hrópar heilinn á súrefni og við bætist blessuð yfirliðstilfinningin sem ber mann ofurliði ef að tilfinningarnar gera það ekki á undan.

Já þetta er frábær líðan. Mæli með því við alla að þið prófið þetta sem allra fyrst. Ég prófaði þetta í morgunn og var það alveg einstaklega hressandi. It made my day!!!!

Þið lesið kaldhæðnina í þessu er það ekki?

Bless lömbin mín.