Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Allt að gerast...

Jebb það er ýmislegt í gangi sem ég hef ekki sagt ykkur. Ég er t.d hætt að vera miðbæjarrotta. Ég er nefnilega flutt alla leið uppí Árbæjinn í þessa líka fínu íbúð á annari hæð í Hraunbænum. Það er svona smá þrá í miðbæjinn en ég sakna þess þó ekki svo að kúldrast í 26fm holu þar sem ég þurfti að geyma fötin mín undir rúmi sökum plássleysis og klofa yfir klósettið til að komast í sturtu. Ég veit samt að ég á eftir að sakna þess rosalega mikið að geta ekki skotist til Láru bekkjarsystur í spjall ( Lára mín sorry en þú og Benni verðið að kaupa ykkur íbúð nálægt mér ). Sko það bjargaði síðasta vetri fyrir mér hvað Lára og Benni sáu vel um mig og ég vil hér með þakka þeim alveg heitt og innilega fyrir að hlúa svona vel að litlum aumum flækingsketti ÞIÐ ERUÐ YNDI!!!

Skrýtið samt hvað lífið manns er stundum kaflaskipt. Núna var ég að ljúka kaflanum um Laugarvatn og ég myndi nú ekkert vera að lesa hann sérstaklega til prófs. Hann leið bara fljótt hjá án einhverra sérstakra atburða. Svo er bara fullt framundan hjá mér: brúðkaup hjá Ólavíu frænku, Menningarnótt, Svíþjóð. Ég er sko að deyja úr spenningi að hitta bekkinn minn aftur!! Ég hitti tvo bekkjarfélaga mína þá Jens Karl og Birgi á Laugarveginum í dag og þeir voru svo mikil krútt eitthvað að labba þarna saman með sólskinsbrosið og öxl í öxl að ég varð að hlaupa til þeirra og knúsa þá smá. Síðan þegar ég kom heim þá kíkti ég á bekkjarbloggið okkar og sá að það er smá fjör að lifna við á þeim bæ þannig að það eru greinilega fleiri en ég sem eru spenntir að hittast í skólanum.

Ég veit að ég er búin að skuldbinda mig til að halda nokkur partý þar sem ég er flutt í mannsæmandi híbýli og ég skal hér með tilkynna það að ég mun standa við það ( no worries my friends ), fátt myndi gleðja mig meira en að fá að deila þessari íbúð með ykkur eina góða kvöldstund. Ég hef í raun aldrei búið svo vel að geta boðið fólki í almennilegt partý. Ég lét það þó ekki stöðva mig á einu Pizza Hut djammi árið 2002 (minnir mig) en þá bjó ég í herbergi á Hommahóteli og bauð u.þ.b 20 manns í eftirpartý. Þetta var ansi spaugilegt og það má með sanni segja að ég hafi gert garðinn frægan með þessari uppákomu, það var bara ekki þverfótað fyrir fólki hjá mér og þegar hóteleigandinn kom að leysa upp gleðskapinn gat hann ekki annað en glottað og hrist hausinn yfir þessari sjón sem mætti honum.
Mætti ég líka bæta við að það var ekki mitt partý sem hann kom til að leysa upp til að byrja með heldur þriggja manna gleðskapur í herberginu á móti mér. Ég passaði að allir hefðu hljótt inni hjá mér og hvísluðust á. Hóteleigandinn hefði ekki vitað af þessu partý nema ef hurðin hjá mér hefði ekki akkúrat opnast þegar hann var að hella sér yfir háværu nágranna mína ( djös óheppni maður ).

Það er kannski ekki svo galið að renna lauslega yfir það hvar ég hef búið síðan ég flutti í borgina það herrans ár 2000.

1) Háaleitisbraut 58:
Ég bjó í herbergi hjá Ernu ömmu og Jóni afa haustið 2000 til vorsins 2001.

2) Hringbraut 37:
Leigði íbúð með Védísi og Öllu vinkonum mínum í sumarið 2001. Búskapurinn gekk ekki betur en svo að við splittuðum seint um sumarið ( stelpur ég elska ykkur en við vorum ekki beint að gera góða hluti sem meðleigjendur ) Ég á samt góðar minningar frá þessu tímabili og sé ekki eftir neinu því vinskapurinn er enn til staðar og það skiptir öllu.

3) Ingólfsstræti 12 (??):
Herbergið fræga á Hommahótelinu. Það fór alveg merkilega vel um mig þarna á Ingólfsstrætinu og í rauninni var það bara sökum peningaleysis sem ég endaði aftur á Háaleitisbraut hjá ömmu og afa enn eina ferðina.

4) Portúgal ( veit ekki adressuna ): Ég og Lára vinkona mín frá Nasa lögðum í víking til Portúgal þar sem hún fann ástina en ég staldraði við stutt og tók flugvélina til annars útlands.

5) Svíþjóð-Karlskoga (Kilstavagen 66): Í heilt sumar (2002) bjó ég hjá systur minni og hennar familí þar sem ég vann fyrir mér sem þerna á hóteli. Þetta var yndislegur tími en föðurlandið kallaði og ég hélt heim í lok sumarsins.

6) Háaleitisbraut 58:
Endaði aftur í afa og ömmu-hreiðri og dvaldi þar til jóla.

7) Vestmannaeyjar- Áshamar 10:
Sökum óviðráðanlegra ástæðna endaði ég á Hótel Mömmu og dvaldi þar í 10 mánuði eða til haustsins 2003.

8) Bergþórugata 37 - 101 Reykjavík:
Sumir vilja kalla þetta sýnishorn af íbúð, aðrir kalla þetta einfaldlega herbergi en ég hef alltaf kallað þetta litlu íbúðarholuna mína á Beggugötunni. Núna er samverustundum mínum við Begguna senn að ljúka... Takk fyrir mig Begga mín!!

9) Árbær- Hraunbær 98:
Stelpan bara komin í þetta líka fína hreiður. Hraunbærinn og ég erum alveg að "konnekta" og ég hlakka til að verja mínum stundum hérna með sjálfri mér, vinum, vandamönnum, ættingjum og fleira skemmtilegu fólki sem ég hef ekki enn kynnst.

Skál fyrir því!!!!!!!!0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home