Erna Eina í heiminum....

Svona líka ljómandi gaman.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Ó vá London I love you!!

Já mikið rétt ég er komin á klakann aftur eftir eina bestu helgi ævi minnar. Hér er partur úr ferðadagbók minni.

Fimmtudagur:
Eros sótti mig á Stansted flugvöll og þrem tímum seinna var ég á klúbb sem heitir Elyssium með Védísi, Díönu, Evu, Eros, Greg, Hilmari, Róbert og David. Þar stoppaði ég nú stutt því ferðahöfuðverkurinn tók völd af mér og neyddi mig til að drífa mig undir sæng og sofa. Klúbburinn var hvorteðer ekkert að heilla mig sérlega þessa stundina því verðið á barnum var eins og á börunum hérna heima og krakkarnir voru flestir hauslausir af drykkju meðan ég var edrú (no need to worrie ég átti eftir að setja mitt drykkjumark á London seinna í ferðinni).

Föstudagur:
Ég vaknaði um hádegi og fór með Eros í eina allsherjar túristaferð um London. Ég verð að segja að hápunkturinn fyrir mig var Big Ben, Trafalgar Squeare og síðan Picadilly Circus. Við skoðuðum líka margt, margt, maaaaaaaargt fleira og eftirminnileg er ostabúðin sem við stoppuðum í á einni hliðargötunni. Lyktin þarna inni minnti mig á viðbjóðslegar táfýlur af öllum gerðum. Svo sagði Eros að ég yrði nú að smakka einn ákveðin ost sem heitir Stinking Bishop.... hafið þið ímyndað ykkur hvernig það er að éta tásveppi??? já ég held ég geti gert mér það í hugarlund eftir að hafa prófað þennan viðbjóðslega fjanda!

Laugardagur:
Það var þennan dag sem ég flaggaði víkingageninu mínu. Án þess að gera mér grein fyrir því að það voru ár og aldir síðan ég datt síðast í það þá stútaði ég rauðvínsflösku með bestu lyst áður en ég fór á lífið með krökkunum. Við fórum inná þrjá heitustu klúbbana í London og þeir runnu allir í eitt hjá mér. Ég var hreint út sagt "pissed" og hefði ekki þekkt Britney Spears þó hún hefði komið uppað mér og boðið mér í glas. Krakkarnir lýstu þessu mjög vel.... ég var skælbrosandi, ósamræðuhæf og lét eins og ég væri að leika aðalhlutverkið í Dirty Dancing, nærstöddum til mikillar lukku. Ég var líka mjög sannfærð um að ég gæti gert dansspor sem ég hef séð Beyonce Knowles taka svo listavel í sjónvarpinu. Afleiðingarnar urðu marbletturinn sem ég ber svo stolt á vinstri rasskinn eftir að ég húrraði aftur fyrir mig og lenti á tröppu. Svona getur maður verið hrikalega bjartsýnn;)

Sunnudagur:
Þetta var síðasti heili dagurinn minn í London og mín beið surprise sem Eros hafði undirbúið handa mér. Við keyrðum tvo tíma fyrir utan London og á leiðinnni sofnaði ég. Þegar við komum á áfangastað sá ég að við vorum útí sveit um miðja nótt. Þá hófum við göngu ásamt mörgum öðrum sem voru þarna í sama tilgangi og við. Ég vissi enn ekkert hvað var í gangi fyrr en að mér birtist sýn sem mér er kunnugleg en aðeins á mynd í bókum. STONEHENGE blasti við mér í allri sinni dýrð og þúsundir manna inní því og í kringum það. Vanalega verður maður að horfa á Stonhenge frá girðingu sem er strengd í kringum það en núna mátti fólk labba uppap steinunum og snerta þá... þessvegna príla á þeim. Ástæðan??: það voru sumarsólstöður og á hverju ári er haldin hátíð þar sem allir koma saman til að sjá sólina koma upp. Það var svolítið hippalegur blær yfir þessu... fólk útum allt að hugleiða, reykja, spila á trommmur og panflautur. En þarna var líka ósköp venjulegt fólk inná milli, sumir með heilu fjölskyldurnar í eftirdragi, aðrir frá hvaðanæva úr heiminum til þess eins að verða vitni af þessu undri. Það var mögnuð reynsla að sjá sólina koma upp klukkan fjögur um morguninn hjá Stonehenge og heyra fólk fagna og hrópa, manni fannst skyndilega eins og heimurinn værir fullkomin og að ekkert gæti breytt því. Svo lögðum ég og Eros okkur í bílnum hans í nokkrar klukkustundir áður en við brunuðum heim á leið mjöööööög þreytt og úldin.

Þessvegna er ég mjög þreytt núna enda hef ég sofið lítið sem ekkert síðan á laugardagsnóttina. Þið verðið líka að afskaka allar stafsetnga-eða málfræðivillur hjá mér því ég er orðin rangeygð í orðsins fyllstu merkingu (úff). Ég varð bara að deila þessari frábæru ferð með ykkur í grófum dráttum.

Svefnpurkukveðjur.....Erna Björk ZZZZZZZzzzz-ZZZZZZZzzzz........

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home